Sykurlausar Sörur

Jólin eru að koma og ekki seinna vænna að skella í Sörur. Ég er, náttúrulega, með sykurlausa og feita útgáfu fyrir ketófólkið, þá sem flexa og alla sem finnst gott að fá sér sætan bita með góðum bolla af kaffi eða tei.

Sykurlausar og ketóvænar Sörur

24 stykki

Botn

4 eggjahvítur

240 g blanda af pecan- og valhnetum

200 g Sukrin flórsykur

Þetta gerir þú

Stilla ofninn á 180°C. Setja bökunarpappír á bökunarplötu.

Hakka hnetur í matvinnsluvél eða með töfrasprota, gróft en ekki um of. 

Þeyta eggjahvíturnar alveg stífar.

Blanda varlega Surkin flórsykri og hökkuðu hnetunum í stífu eggjahvíturnar. 

Hvað viltu hafa Sörurnar stórar? Ef þú vilt hafa bara einn munnbita mótaðu sörubotninn með einni eða tveimur teskeiðum ef þú vilt hafa þær stærri þá er matskeið betri. 

Baka botninn í 10-12 mín eftir stærð.

Kæla botninn alveg áður en kremið er sett á. 

Krem

4 eggjarauður

120g Sukrin Gold ”púðursykur”

250 g mjúkt smjör

40 g kakóduft

½ tsk vanillu dropar eða ¼ tsk vanilluduft ( ekki vanillusykur!)

2 msk uppáhellt kalt kaffi (eða 1 tsk kaffiduft (neskaffi) og 2 msk vatn).

Þetta gerir þú

Þeyta 4 eggjarauður og sukrin gold “sykur” í matvinnsluvél.  

Bæta smjörinu í og halda áfram að hræra/ þeyta.

Bæta í kakódufti, vanillu og kaffi og þeyta/ hræra þangað til kremið er silkimjúkt og fallegt. Ef það er ekki alveg létt og mjúkt þarf kannski meira af smjöri. 

Setja nú kremið jafnt á alla sörubotnana. Ef þú átt sprautupoka er það mjög fínt að nota en líka hægt að setja kremið í plastpoka og klippa lítið gat á einn endan. Það er algjört smekksatriði hvað mikið krem fer á kökurnar. 

Kælið þær vel og best í frysti áður en þær eru hjúpaðar með súkkulaði.

Hjúpur

300g dökkt minnst 70% helst 85% dökkt súkkulaði.

Bræða súkkulaðið yfir vatnsbaði og setja eina klípu af smjöri eða kókosolíu í. 

Dýfa köldum söru krem hlutanum í súkkulaðið. 

  Þegar súkkulaðið er storknað alveg, þá er best að geyma sörurnar í kökuboxi í lögum, með bökunarpappír á milli. Það er ágætt að geyma Sörurnar í frysti og taka þær út með smá fyrirvara áður en þær eru bornar fram. 

Fyrir þig sem hefur svo mikið að gera!

Ef þú hefur ekki tíma í svona amstur þá er hægt að stytta þér leið. Gerðu eina stóra Söru í ofnskúffunni! Þú setur allt botn deigið á bökunarpappírinn og fletur jafnt út og bakar í 20-30 mín, fer eftir ofni. Fylgstu bara vel með, botninn á að vera stökkur. 

Þegar botninn er alveg kaldur, þá er kominn tími til að þekja hann með kreminu góða. Ef þú kemur skúffunni í ísskápinn til að kæla eða jafnvel í frystirinn í 10-15 mín er það frábært. En kremið verður að vera kalt (alla vega besta útkoman) áður en þú setur súkkulaði hjúpinn yfir allt. 

Skera í ferninga, þá stærð sem hentar þér best, raða í kökubox með bökunarpappír á milli og geyma í ísskáp eða í frysti. 

Scroll to Top